Færsluflokkur: Bloggar

Ég er að baka

Já nú er ég sko að baka og baka eða þannig, en ég á víst afmæli bráðum eða nánar tiltekið næsta mánudag og ætla ég reyndar að hafa smá kaffi fyrir fjölskylduna og vini á sunnudaginn en þá er ég í fríi verð að vinna og í skóla á mánudaginn, nú svo er ég reynar með saumaklúbb annað kvöld svo ég er að baka fyrir það líka en það er nú bara eitthvað smá eins og tvær kökur eða svo, við í saumó höfum ekkert gott af mikið af kökum eða þannig, a.m.k. ekki ég.  Nú ekkert varð úr skóla hjá mér í dag, mætti galvösk kl. 8 í morgun og fór heim aftur 5 mín. seinna, Hjúkrunarfræðikennarinn er enn veikur og mætir reyndar ekki á morgun heldur og ekki nóg með það heldur sú sem kennir mér lyfjafræði og tölvuna voru báðar veikar líka, eða a.m.k. fjarverandi í dag.   Svo ég ákvað bara að nota daginn til að baka, byrjaði reyndar á því að skreppa með Svövu, en hún er með mér í hjúkrun, heim og fá mér kaffi, svo fékk ég sms frá Önnu Lísu minni um að koma í intersport og kíkja eitthvað meira því að hún var í tvöföldu gati, hún er nefnilega með mér í lyfjafræði og svo var íslensku kennarinn hennar líka veikur en það voru reyndar 7 kennarar veikir í dag eða fjarverandi, ég veit nú bara ekki hvað er í gangi hvort að þetta sé flensan eða hvað.  Fjóla mín er enn voðalega sorgmædd vegna örlaga Grímu litlu og saknar hennar mikið, hún er búin að koma með Perlu inn í hvert sinn sem hún kemur heim, held að hún sé að reyna passa upp á það að hún fari ekki fyrir bíl líka, Tinna brást öðruvísi við, hún eiginlega skrifar sig frá þessu á spjallsíðu sem hún er á en vissulega var hún mjög reið og sorgmædd en grét þó ekki eins og Fjóla, Fjóla grét í marga klst. í gær og er frekar döpur enn í dag, ég ákvað eiginlega að við myndum fá okkur aðra kisu til að lina sárustu sorgina en reyndi jafnframt að útskýra fyrir Fjólu að við máttum og megum alveg eiga von á svona löguðu allt svo að kisurnar okkar verði fyrir bíl, það er það mikil umferð hérna framhjá húsinu okkar og Gríma var svo forvitin, ef hún var út á götu og það var að koma bíll þá stóð hún bara kyrr og horfði á bílinn nálgast sig, hún hafði oft sloppið á síðustu stundu en maður vonaði alltaf að hún myndi sleppa alltaf.  Við höfum verið að skoða síður og auglýsingar með kettlingum en ég vil þá reyna fá eins ungan kettling og hægt er til að hann venjist hundinum og að Perla sætti sig við hana, og það verður víst að vera læða.  Jæja gott í bili, verð að halda áfram að baka.  


Sorg á heimilinu

Grima fædd í byrjun mars 2005 - dáin 22 október 2006  Blessuð sé minning hennar.

GrátaGrátaGrátaGrátaGráta

Já það ríkir sorg á okkar heimili í dag þar sem ökuníðingur keyrði á kisuna okkar og drap hana, keyrði síðan burt eins og ekkert væri en sem betur fer kom þar að annar bíll sem sá kisuna okkar á götunni, færði hana yfir á gangstétt og eigandi sá bíls hringdi svo í mig og lét mig vita hvað hafði gerst og hvar hún væri sem var reyndar bara hérna fyrir utan hús nr. 147 sem er næsta hús við okkar, Gríma litla hefur sennilega bara verið á leiðinni heim þegar hún varð fyrir bílnum en við höfum reynt að hugga okkur við það að hún hefur dáið strax og ekkert kvalist hún var svo illa útlítandi.  Þessi litla kisa okkar hefur fært okkur margar gleðistundir, hún var afskaplega forvitin og skemmtilegur karakter, óttalegur púki var samt í henni og hafði hún unin af því að stríða eldri kisunni okkar og espa hana upp í að elta sig sem tókst nú ekki ósjaldan, reyndar voru þær orðnar hinu mestu mátar þegar skyndilegum dauða Grímu bar upp á.  Hennar verður sárt saknað hér á heimilinu, hún gaf okkur svo mikið.

 


Syfjuð

Já núna er ég svolítið mikið syfjuð en ég ætla að reyna halda mér vakandi til svona ca. 6 eða 7, þannig er nefnilega að ég vaknaði kl. 5 í morgun til að koma skottunum mínum af stað með morgunblaðið, það gekk ekkert allt of vel því Fjóla var svo syfjuð og langaði ekkert til að vakna en að lokum tókst það og ég gat lagst upp í aftur þá var kl. rúml. 05:30 en þá hringdi Kiddi sonur minn í mig og bað mig að sækja sig niður í bæ, hann hafði farið eitthvað með vinum sínum og fékk sér í glas og síðan varð hann viðskila við þá og komst ekki heim, enginn strædó á þessum tíma og hann átti ekki fyrir leigubíl, nú ég varð vitanlega að renna eftir stráknum í bæinn og þegar heim var komið þá var ég svo vel vöknuð að ég ákvað bara að keyra út í hverfi til stelpnanna og hjálpa þeim að bera út, nú kl. var orðin 06:30 þegar það var búið og þá gat ég loksins lagt mig aftur í ca. 40 mín. en þá varð ég að fara á fætur og í vinnu, reyndar fékk ég að fara kl. 14 úr vinnunni þar sem ég á næturvakt líka í kvöld og þess vegna ætla ég ekki að fara sofa fyrr en um 6 eða 7 leytið svo að ég haldist vakandi í nótt, vona bara að mér takist að sofna í kvöld til svona 22:30 helst en á að mæta 23:30 í vinnu, svo er bara að vona að nóttin verði róleg og afslöppuð en það er misjafnt hvað gengur á á nóttunni.  Nú annars er bara allt gott héðan að frétta, kíkti aðeins í Smáralindina áðan aðallega vegna þess að stelpunum langaði að máta skauta í Intersport, en Tinna er að æfa skauta og Fjóla er að spá í að byrja líka.  Svo er Fjóla að fara vinna á eftir en hún er kvöldvakt núna og morgunvakt í fyrramálið svo hún ætlar að gista hjá afa sínum og ömmu í nótt en Tinna er að fara að passa í kvöld.  Nú svo er ég að spá í að kíkja í nýju Europris verslunina sem var verið að opna í dag, fyrst hún er hérna í Kóp. Læt gott heita í bili, bæbæ.

Gott að ferðast með strædó!!!!!!!!

Eða þannig ég verð nú bara að segja það að landinn versnandi fer eða þannig, þannig er að hún Fjóla mín þarf að taka strædó í vinnuna eins og flestir vita sem hafa lesið þessa síðu mína, nema hvað að þegar hún ætlaði heim í dag eftir vinnu þá þurfti hún að bíða í svolítinn tíma eftir vagninum, allt í lagi með það, nú svo loksins kemur vagninn en viti menn þrátt fyrir það að stelpan stóð undir ljósastaur svo hún sást vel og veifaði vagninum þá keyrði hann bara framhjá henni, nú jæja hún þurfti vitanlega að bíða í hálftíma eftir næsta vagni og loksins kemur hann og í þetta skipti er stoppað fyrir henni, nú hún fer inn og þar sem hún er nú ekki alveg nógu kunnug hvar hún þarf að vera til að ná strædó niður í Mjódd þá spyr hún bílstjórann hvort hann sé að fara niður í Mjódd, en hvað haldið þið, þá er þetta einhver útlendingur sem er bílstjórinn, allt í lagi með það, en hann KUNNI HVORKI AÐ TALA ÍSLENSKU NÉ SKILDI HANN ÍSLENSKU,  ég meina það hver er meiningin að hafa ómálga bílstjóra á almenningsfaratæki, þetta nær nú engri átt, nú stelpugreyið reynir að gera sig skiljanlega og loksins áttar hún sig á því að hann er ekki að fara niður í Mjódd og hringir þá bjöllunni til að komast út en haldið þið að hann hafi stoppað, NEI OG AFTUR NEI, bílstjórinn hélt bara áfram a.m.k. framhjá næstu stoppustöðum og það var ekki fyrr en stelpan labbaði til hans eina ferðina enn og spurði hvort hann ætlaði ekki að stoppa, þá loksins stoppaði hann eiginlega mitt á milli stoppustöðva svo stelpan þurfti að labba þó nokkra vegalengd til baka til að komast á rétta stoppustöð og náði þá loksins strædó sem fór niður í Mjódd, maður gæti haldið að það væri ekki nóg með að bílstjórinn gæti hvorki talað né skilið íslensku heldur hafi hann verið heyrnarlaus líka þar sem hann stoppaði ekki við bjölluhringinguna.  JA heimur versnandi fer en núna er skvísan búin að átta sig á því hvar hún á að vera til að ná strædó í Mjóddina en þetta nær vitanlega engri átt, svo loksins þegar hún komst niður í Mjóddina var hún bæði mjög köld og þreytt og átti þá eftir að labba heim í Kópavoginn úr Mjóddinni, þannig að hún var virkilega fegin að komast loksins heim, fór svo reyndar að passa en það er nú bara í næsta húsi og skottan sem hún var að passa svaf bara svo það var ekkert erfitt.  En Fjóla er bara virkilega ánægð í vinnunni, stelpan sem er að þjálfa hana er bara virkilega skemmtileg og fín svo þetta gengur bara allt ljómandi.  Annars var ég í prófi í dag og gekk nú ekkert allt of vel, mundi allt þar til ég fékk prófið í hendurnar, þá var bara algjör eyða í kollinum á mér, frekar óþægilega tilfinning að vita að maður veit hlutina en bara ekkert kemur upp í kollinum þegar maður reynir að muna, algjörlega autt.  En það kemur svo bara í ljós vonandi eftir helgi hvernig mér gekk, skildist reyndar á flestum að hafa gengið ekkert allt of vel í þessu.  Nú svo fór ég að vinna og var bara frekar rólegt svo þetta er bara búið að vera fínn dagur.  Gott í bili, bæbæ.

Lítið um kennslu

Já það er lítið um kennslu þessa dagana, þannig er að kennarinn sem kennir mér hjúkrun og hjúkrun verklega er búin að vera veik sl. daga, hún mætti á mánudaginn en ekki síðan og er enn veik, var að skoða það það er svo sem ágætt en samt ekki, við verðum þá á eftir áætlun í þessum fögum.  En ágætt því í dag þarf ég þá ekki að mæta fyrr en kl. 14:15 en þá mæti ég í lyfjafræði og er að fara í próf í því, það verður eitthvað skrautlegt, ég er búin að vera lesa og lesa alla vikuna en þetta er ekkert að festast í hausnum á mér svo þetta verður nú ekkert til að hrósa sér yfir held ég einkunin sem ég fæ úr þessu en það kemur bara í ljós, svo er þetta svo mikið efni sem þarf að lesa fyrir þetta próf, eða allt um magalyfin, öndunarfæralyfin og verkjalyf, ansi mikið að mínu mati.  En að öðru leyti þá er bara allt gott að frétta héðan, allir við góða heilsu og já Fjóla mín er búin að fá vinnu, hún fór í fyrsta skipti í gær og fer aftur í dag, hún fékk vinnu á Subway í spönginni og henni finnst bara voða gaman, reyndar var hún svolítið þreytt í gærkvöldi í fótunum og svo þurfti hún að passa líka eitthvað í gærkvöldi svo hún var hálfþreytt í dag líka, ég ráðlagði henni að taka sandalana sína með sér í vinnu í dag sem hún ætlar að gera, hún verður ekki eins þreytt í fótunum í þeim, hún er voða montin, er komin með vinnuföt og allt svoleiðis.  Hún tekur strædó úr Mjóddinni upp í Spöng og það gekk bara voða vel í gær, reyndar fór hún aðeins of langt með strædó en maður lærir af mistökunum, síðan þegar hún var búin í gær labbaði hún til afa síns og ömmu og gat platað ömmu sína til að skutla sér heim.  Reynar keypti ég mér sjónvarp í gær, það gamla dó endanlega í gær og hefur jarðaförin farið fram í kyrrþey he he.  Reyndar á ég eftir að reyna stilla það nýja inn, Kiddi minn gat stillt inn stöð 1 í gær en svo á eftir að tengja þetta við digitalinn og ná inn öllum hinum stöðvunum, ég er að vonast til að Kiddi eða pabbi geti gert það fyrir mig, ég og svona tæki eigum ekki samleið.  Jæja læt gott heita í bili, ætla að reyna lesa svolítið meira fyrir prófið og svo þarf ég út um 11 leytið og svo heim aftur og lesa meira, sem sagt nóg að gera eins og alltaf bæbæ.

Rólegur dagur

Góða kvöldið, já það má svo sannarlega segja að þetta hafi verið róglegur og góður dagur.  Nú hann byrjaði á því vitanlega að vakna og skella sér í sturtu, fá sér að borða og svoleiðis og síðan í skólann, fyrsti tíminn var hjúkrun verkleg og nú var farið í fótsnyrtingu og vitanlega fékk ég ásamt 2 öðrum að leika sjúklinga sem þurftum á fótabaði að halda og mikið skelfing var þetta notalegt svona í morgunsárið, fyrst voru fæturnir settir í volgt/heitt vatn uppi í rúmi, nú svo voru þeir þvegnir, þurrkaðir,raspaðir,  borið á þá mýkjandi krem og að lokum neglur klipptar, þetta var svooooooooooooo skelfing notalegt í morgunsárið.  Nú svo var ég í gati og þá notaði ég tímann við að skoða spurningar og svörin sem ég var búin að gera fyrir lyfjafræðiprófið og sauma svolítið út, svo var tími í lyfjafræði, ósköp rólegur og góður, hlustuðum á kennarann í smá tíma og gerðum enn eitt verkefnið og svo var ég búin í skólanum, fór þá í Bónus að versla og síðan heim, gekk frá vörunum, settist niður og saumaði út þar til ég þurfti að fara í vinnu.  En viti menn, haldiði ekki að hann sonur minn hafi komið mér á óvart með því að biðja mig um að prjóna á sig peysu, hélt að hann væri nú vaxinn upp úr því að biðja mömmu sína að prjóna peysu, ég lofaði nú engu a.m.k. ekki fyrir jól, ég er nú enn að prjóna peysuna á hana Fjólu, þó hún sé reyndar langt komin, en honum langar í einlita grásprengda peysu, æ æ hann er svo stór, en hvað um það ætli maður geri þetta ekki fyrir hann svona í náinni framtíð.  Nú svo fór ég í vinnu og var vaktin bara hin rólegasta, bara allir eitthvað slappir og þreyttir svo það voru allir komnir í bólið um 10 leytið held ég, þá var nú bara slakað á, gengið frá línvagni og taupokum, ruslinu og þurrkað af í setustofunni og horft á sjónvarpið.  Jæja læt gott heita bæb.


Dagurinn tekinn snemma

Já hann var sko tekinn snemma í dag eða kl. 5 hringdi klukkan mín en reyndar fór ég ekki að sofa fyrr en um 1 leytið í nótt þar sem ég var að vinna í gærkvöldi.  En hvað um það kl. 5 fór ég á fætur, ýtti við Tinnu þar sem við vorum að fara bera út moggann, fórum af stað um 05:20 og búnar rétt fyrir 7 en þá var voða gott að koma heim, fá sér eitthvað kalt að drekka og beint í bólið aftur he he.  Blaðburðurinn gekk vel reyndar var rigning og rok og þá var sko gott að eiga góðan galla en reyndar varð mér afskaplega heitt í honum þar sem hann e loðfóðraður.   Nú svo lét ég kl. vekja mig kl. 10 en reyndar hringdi síminn minn kl. 08:30 og ég skil nú bara ekki hver vogar sér að hringja í mig á þeim tíma sólarhringsins.  En sem sagt rúml. 10 fór ég á fætur þar sem ég var búin að lofa Tinnu að skutla henni á skautaæfingu í Laugardalinn og horfa á hana, reyndar komu Fjóla og vinkonur hennar með líka sem höfðu gist um nóttina og´svo eftir æfinguna fóru þær allar á skauta, voða gaman, á meðan fór ég heim og byrjaði að reyna útbúa mér spurningar í lyfjafræði til að geta spurt sjálfa mig út úr þessu efni, það er bara ekki að ganga að muna þetta dót neitt.  Nú svo kl. 14:30 sótti ég dömurnar aftur, fór heim og bakaði vöflur fyrir þær sem var vel þegið enda þær orðnar svangar.  Síðan hélt ég áfram með spurningarnar og er nú komin með alveg heljarins búnka með spurningum og það bara úr þrem teg. lyfja eða úr meltingar-, verkja- og öndunarfæralyfjum.  Síðan fórum við mæðgur aðeins í Kringluna að kaupa afmælisgjöf handa skottunni á efri hæðinni og eftir það bárum við út sunnudagsmoggann en við vorum að klára það..  Núna eru Tinna og Fjóla að undirbúa sig fyrir afmælið og ég ætla sko bara að slaka á í dag, held að ég sé búin að gera það gott í dag.  Gott í bili bæbæ.


Dugleg og eyðsluskló

Já það má svo sem segja það að ég hafi verið dugleg í dag, þrátt fyrir það að það var enginn skóli í dag og heldur engin vinna, þá ákvað ég nú samt að taka daginn snemma, vaknaði um 07:30 og sá til þess að skvísurnar mínar færu á réttum tíma í skólann, eftir það byrjaði ég nú daginn rólega, fékk mér te og las blöðin síðan dreif ég mig í að ryksuga alla íbúðina, þurkaði af í stofunni og meira að segja moppaði yfir með blautri moppu eldhúsið og stofuna þannig að það er bara virkilega hreint og fínt hjá mér a.m.k. í augnablikinu síðan fór ég í Dýraland og keypti hundafóður og skrapp í leiðinni út á Geirsnes til að leyfa honum Lappa mínum að hreyfa sig svolítið.  Nú svo fór ég heim og fékk heimsókn, eftir það saumaði ég út voða gaman að sauma póstpokann og það er bara komin heilmikil mynd á hann verð ég nú bara að segja.  Síðan þegar skotturnar komu heim og voru búnar að læra ákváðum við að kíkja í nýju IKEA verslunina sem var verið að opna í dag, þar var bara heilmikið að sjá eins og við var að búast eftir það skuppum við í Kringluna og þá kem ég að eyðslunni en við þurftum endilega að fara í NEXT og þar sá Tinna mín gallabuxur sem voru á tilboði, bar ansi smartar buxur á hana svo ég lét freistast og keypti þær á hana og ekki nóg með það heldur keypti ég fullt af sokkum á þær líka, pakka með 7 pörum á Fjólu og annan með 5 pörum á Tinnu og þetta kostaði mig rúmar 4000 kr.  uss uss, það er eins og ég segi, ég á ekki að vera í fríi því þá fer ég á flakk og eyði og sóa ja svona er nú það, en nei nei ég er nú ekki alltaf svona slæm í eyðslunni, þetta vara bara eitthvað sem þeim vantaði og fyrst að buxurnar voru á svona Kringlukasttilboði þá varð maður að slá til.  En svo eftir að heim kom þá eldaði ég bara eitthvað fljótlegt og síðan fóru stelpurnar að passa og ég hef bara setið og saumað út.  Ákvað að slaka aðeins á með peysuna enda gekk vel með hana í gær, ekki þar fyrir utan að ég hefði eiginlega átt að nota daginn til að lesa undir lyfjafræðipróf, en það kemur dagur eftir þennan dag.  Annars hitti ég eina vinkonu mína í IKEA en hún er verslunarstjóri í Subway í Spönginni og ég spurði hvort að hana vantaði ekki starfsfólk og það var reyndin svo að nú er FJóla mín búin að sækja um vinnu þar svo að nú vona ég bara að hún fái vinnu, það væri frábært, henni langar að safni svolitlum peningum bæði til að geta keypt sér eitt og annað og svo er ég að benda henni á það að hún verði að eiga fyrir skjólagjöldum og fartölvu og þess háttar þegar hún fer í menntó.  Jæja læt gott heita í bili bæbæ.


loksins vetrarfrí

Jæja núna ætla ég að leika mér aðeins með litur og letur hérna.  Hef fundist letrið vera svo stórt undanfarið og ég þarf alltaf að skrifa svo mikið að ég ætla að reyna að minnka það aðeins.  En hvað um það, það er svo sem ekkert merkilegt að frétta núna, reyndar er ég komin í 2 daga frí frá skólanum svokallað vetrarfrí sem er bara virkilega fínt.  Annars fór ég í foreldraviðtal í skóla stelpnanna minna í gær og þær fengu svo frábæra umsagnir að það lá við að þær væru komnar með geislabauga eftir allt hrósið frá kennurum sínum.  Ég var sérlega ánægð með hvað Fjólu minni gengur vel í stærfræðinni en sl. vor var hún farin að dala talsvert en er núna bara komin á fljúgandi skrið og vona ég bara að það verði áfram, a.m.k. hefur hún verið að fá um og yfir 8 í eink. sem mér finnst frábært hjá henni, það er svo mikilvægt að vera með góðar einkunnir í 10 bekk og góðan skilning á námsefninu svo að þeim gangi vel í samræmdu prófunum.  Einnig gengur Tinnu minni mjög vel í öllum fögum og fékk hún bara heilmikið hrós frá öllum sínum kennurum, reyndar þurfti ég að hitta 5 kennara fyrir hennar hönd, þar sem hún er lesblind og er mikið í sérkennslu a.m.k. í stærðfræði og íslensku en hún er að bæta sig töluvert í þeim fögum, nú svo vitanlega hitti ég umsjónarkennarann hennar líka og hún var bara mjög ánægð með hann, báðar stelpurnar eru mjög duglegar og virkar í tímum og vinna vel, enda borgar það sig margfaldlega fyrir þær því þá er minna um heimanám sem er bara gott mál.  Það sem helst er að plaga hana Tinnu mína er enskan og danskan, hún var í sérkennslu í ensku í fyrra en vegna þess hve nemendum hefur fækkað í skólanum milli ára þá var skorið á fjármagn til skólans og þá kemur það vitanlega niður á þeim sem síst mega við því eða í þessu tilfelli sérkennslunni, en það er ekki boðið upp á sérkennslu í ensku né dönsku í vetur a.m.k. ekki fyrir 7, 8  og 9 bekk, en 10 bekk á kost á þess sem mér finnst bara fáránlegt því hvaða gang gerir það fyrir þessi börn sem eru svona lesblind að koma ólæs og skrifandi í ensku og dönsku í 10 bekk.  En ég ræddi við þann kennara sem er yfir sérkennslunni í skólanum og var hún mjög fegin að ég skyldi koma til hennar því hún var að reyna fá foreldra til að styðja það framtak að fá a.m.k. sérkennsluna í enskuna í gegn aftur, það virðist vera stefna kennaraháskóla Íslands að þau börn sem geta ekki fylgt eftir á venjulegum hraða í tíma að þá verða þau bara að eiga sig eða þannig, en þetta kemur sér mjög illa fyrir lesblind börn því að þau rífa sjálfan sig svo mikið niður og telja sig heims og vitlaus vegna þess að þau ná ekki og skilja ekki hvað er verið að kenna og þau mega alls ekki við því að sjálfsálit þeirra sé rústað svona algjörlega.  Jæja en hvað um það ég vona bara að þetta náist inn, ég get sennilega reddað henni í sambandi við dönskuna, mamma mín er nefnilega dönsk og ég er búin að tala við hana um að koma kannski einu sinni í viku og aðstoða hana með það sem hún er ekki að skilja og ég vona bara innilega að það verði til að hjálpa henni þar til að skólinn tekur við því hvenær sem það nú verður, ekki útlit til að það verði í bráð.  Jæja en þar sem að þær fengu svona frábærar umsagnir að þá var ég búin að lofa þeim að fara á laugaveginn í Lóuhreiður og sukka svolítið sem við gerðum í dag, þær fengu sér súkkulaðitertur og heitt kakó en ég og mamma, því vitanlega kom hún með það er svo gaman og kósý að hafa hana með, fengum okkur bökur og kaffi, mmmmmmmmmmmmm, þetta var virkilega gott, svo reyndar kíktum við aðeins í Kúnígúnd svona aðeins að láta okkur dreyma og ég náði mér í svona kort þar sem eru myndir af öllum jólaóróum sem hafa komið út bæði stórum og litlum.  Nú svo er ég bara hérna heima að slappa af, stelpurnar að passa í næsta húsi í smá stund og eiga svo að passa aftur seinna í kvöld og ég ætla bara að nota kvöldið til að slaka á og horfa á TV, prjóna eða sauma út, ég er nefnilega byrjuð að sauma út svona jólapóstpoka sem verður geðveikt flottur en ég fékk þetta saumadót í jólagjöf frá móður minni sl. jól og svo á ég annað sem ég er ekki byrjuð á en fékk það frá Önnu Lísu minni en það er mynd með 3 kettlingum að horfa á fugla út um glugga, rosalega falleg og mig hlakkar til að byrja á henni, en reyndar er ég að prjóna peysu líka á Fjólu mína og þarf virkilega að fara að klára hana svo ég geti snúið mér að útsaumnum. 

Já annars ég ætlaði alltaf að monta mig aðeins, ég fékk nú bara 8,2 úr hjúkrunarfræðiprófinu þarna um daginn þegar ég var veik og var ég bara virkilega ánægð með þann árangur miðað við heilsufar.  Jæja þetta er gott í bili bæ bæ. 


Loksins, loksins

Já loksins er þessari vaktatörn minni lokið er nú komin í frí a.m.k. fram á föstudag vinn það kvöld og svo frí um helgina og næsta törn byrjar svo næsta mánudag, þ.e.a.s. ef ég verð ekki kölluð á aukavakt á frídögunum en það gæti svo sem gerst.  Það er búið að vera mikið stuð í vinnunni sl. daga, en kannski aðeins rólegra í kvöld samt nóg að gera.  Einnig hafði ég það afrek af í dag að drusla sjálfri mér í sund aftur, já það kom að því að ég kæmi mér í það aftur loksins, er búin að vera ferlega löt við að fara í sundið undanfarnar 2 vikur en vonandi kemur þetta aftur, það er svo skrítið maður er svo latur við að koma sér af stað en svo þegar maður er kominn ofan í laugina þá er þetta svo gott og notalegt að synda smá, reyndar synti ég ekki nema 300 m. í dag en samt bara alveg ágætt að mínu mati, tók þessu bara rólega, eftir sundið skutlaðist ég heim, tók úr þurrkaranum og setti í hann aftur, greip með mér skyr.is og brenndi svo aftur í skólann þar sem ég notaði gatið í sundið, búin að komast að því að það er langbest að nýta götin í þetta.  Nú eftir skóla fór ég heim og reyndi að vinna við þetta powerpoint verkefni en ég er loksins komin með lykilorðið inn á stoðkennarann svo að það gekk aðeins í dag, reyndar er þetta bara að verða þokkalegt hjá mér held ég.  Nú svo var bara farið í vinnu og sem sagt stutt síðan ég kom heim, ekkert merkilegt gerðist í vinnunni nema núna er ég búin að setja mig á vaktir alveg fram til 21 jan. og vona ég bara að ég hafi náð að setja mig nokkurnvegin rétt á þetta allt saman eða þannig.  Nú á morgun er þá bara skóli og jú foreldraviðtöl í skóla stelpnanna, þau fyrstu á þessu hausti og er ég svolítið spennt að vita hvernig þeim gengur, mig reyndar grunar að þeim gangi bara alveg ljómandi vel, a.m.k. eftir því sem þær segja mér og hvað þær hafa verið að fá úr prófum, en það kemur allt í ljós á morgun, a.m.k. er ég búin að lofa þeim kaffihúsaferð ef þær fá góða umsögn en svo er Tinna reyndar að fara í fermingarfræðslu svo þetta verður svolítið strembið að púsla þessu saman, þar sem ég er búín í skóla 12:40 og á að mæta í viðtal hjá Fjólu kl. 12:45 en ekki fyrr en 13:40 hjá Tinnu og hún á að mæta í fermingarfræðslu kl. 15:15, þannig að ég ætla að reyna troða mér fyrr til Tinnu, en hún segir mér að sérkennslukennarinn hennar í stærðfræði vilji líka tala við mig svo ég byrja á Fjólu fer síðan til sérkennslukennarans og reyni svo að troða mér til umsjónarkennara Tinnu a.m.k. er þetta planið.  Nú læt ég bara gott heita og kem mér í bólið bæb.

PS:  Endilega þið sem eruð að skoða bloggsíðuna mína, kvittið í gestabókina ég er svo forvitin hver er að skoða þetta hjá mér og KOMA SVO KVITTA.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband