15.10.2008 | 22:52
Á leið í aðgerð.
Já núna er ég á leið í smá aðgerð, á víst að hekla eða prjóna upp (hengja upp) þvagblöðruna hjá mér, fer ég í þessa aðgerð í fyrramálið og verð víst að vera eina nótt á spítala og síðan verð ég að vera frá vinnu í 1-2 vikur, vonandi ekki lengur. Læknirinn sagði það við mig þegar ég talaði við hann í vor að það yrði þessi tími frá vinnu en svo hafa aðrir sagt að ég þurfi að vera 4-6 vikur frá, ég vona bara innilega að það verði ekki, veit ekki hvað ég á af mér að gera svo lengi frá vinnu, reyndar er ég búin að sanka að mér heilmikilli handavinnu þannig að næstu daga sit ég bara hér heima og sauma út og prjóna nóg að gera í því. Alltaf gaman að dúlla sér í því.
Nú annað að frétta er það að ég er loksins búin að planta út öllum haustlaukunum mínum, lenti í smá vandræðum með staðsetningu með þá, þetta var orðið eiginlega allt of mikið magn til að gróðursetja, þannig er nefnilega ef ég fer í Blómaval eða Garðheima á haustin þá fæ ég bara kaupæði á lauka, kaupi og kaupi svo veit ég ekkert hvar ég á að planta þessu, núna setti ég þetta svona í hrauka hér og þar úti í beði, verður fróðlegt að sjá hvort að eitthvað af þessu kemur upp, ef þetta heppnast þá ætti þetta samt að koma ágætlega út. Einnig er ég búin að hreinsa og loka tjörninni og taka inn alla álfana og annað dót sem var úti í garði svo garðurinn er tilbúinn fyrir veturinn. Reyndar á ég eftir að saga fullt af greinum og trjám niður en kannski nýti ég veikindadagana í það eitthvað, sé til í hvernig ástandi ég verð eftir þetta, vona bara að ég verði hress og geti gert allt eins og áður.
Já haldið svo að Lappi minn hafi ekki stungið af í dag, Tinna hleypti honum út að pissa og hann bara hvarf, þetta var um 12:30, ég vissi ekkert af þessu þar sem ég svaf á mínu græna eyra eftir næturvakt, þegar ég svo vaknaði um 2 leytið þá tók ég eftir að hann var horfinn, ca. klst seinna ákvað ég að fara í smá bíltúr og gá hvort að ég myndi rekast á hann, þá voru liðnir um 3 klst. síðan hann hvarf og var mér eiginlega hætt að lítast á blikuna vegna þess að síðustu tvö skiptin sem hann hefur skroppið frá var hann kominn aftur eftir 1/2 tíma, nú ég keyri af stað og ákvað að kíkja hérna í eina hliðargötuna ekki langt frá mér og hvað haldið þið, er ekki minn á röltinu þar, hann þekkti bílinn strax og var svo lúpulegur þegar ég kallaði á hann, ekki neitt smá skömmustulegur, kom strax og upp í búr í bílnum. Hann er búin að vera voðalega stilltur og rólegur síðan eiginlega bara sofið. Annars hélt ég að hundar hættu að stinga svona af þegar þeir eru orðnir þetta gamlir, hann er jú orðinn 11 ára kallinn minn. Jæja læt gott heita í bili.
Athugasemdir
Hann hefur bara skroppið í sína gönguferð, kannski að gá að tík í nágrenninu.
Gott að hann fannst, þú getur þá farið róleg að sofa.
Faðmlag og kveðja Gleymmerei.
Brynja Dögg Ívarsdóttir, 15.10.2008 kl. 23:03
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.